Undarleg uppákoma varð við fangelsið á Hólmsheiði í gær þegar Sveini Gesti Tryggvasyni, sem dæmdur var í sex ára fangelsi í tengslum við dauða Arnars Jónssonar Aspar á síðasta ári, var óvænt sleppt úr haldi.
Sveinn áfrýjaði dómi sínum til Landsréttar og situr í gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur þar. Gæsluvarðhald yfir honum rann út klukkan 16 í gær og svo virðist sem það hafi farist fyrir að fara fram á áframhaldandi varðhald í tæka tíð.
Því gekk Sveinn frjáls út úr fangelsinu í gær – en beint í flasið á hópi lögreglumanna. Var hann handtekinn á bílastæðinu við fangelsið á Hólmsheiði og færður beint í héraðsdóm þar sem hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins voru fjórir lögreglubílar sendir á vettvang þegar mistökin uppgötvuðust, en ekki reyndist þörf á þeim liðsafla því Sveinn Gestur var rólegur og samvinnuþýður.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari var staddur erlendis þegar Morgunblaðið náði af honum tali í gærkvöld og gat ekki veitt neinar upplýsingar um málið. Ekki náðist í Björgvin Jónsson, lögmann Sveins Gests.
Sveini var í héraði jafnframt gert að greiða samtals 32 milljónir í miskabætur til unnustu Arnars, tveggja dætra hans og foreldra. Einnig var Sveini gert að greiða um 12,9 milljónir í sakarkostnað, málsvarnarlaun, réttargæslu og útfararkostnað.
Sveinn Gestur var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás en ekki manndráp í tengslum við andlát Arnars Jónssonar Aspar, en hann lést í kjölfar árásarinnar. Átti árásin sér stað við heimili Arnars í Mosfellsdal 7. júní á þessu ári.
Arnar var sagður hafa kafnað vegna mikillar minnkunar á öndunarhæfni sem olli banvænni stöðukæfingu sem má rekja til einkenna æsingsóráðs vegna þvingaðrar frambeygðrar stöðu sem Sveinn hélt Arnari í.
Sveinn er sagður hafa haldið höndum Arnars fyrir aftan bak þar sem Arnar lá á maganum og tekið hann hálstaki og slegið hann ítrekað í andlit og höfuð með krepptum hnefa. Eru afleiðingar þessar árásar taldar hafa valdið andláti Arnars.