Jafn auðvelt og að panta pizzu

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Jafn auðvelt er að panta sér vændiskonu í Reykjavík og pizzu. Þetta sagði Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur og ofbeldisvarnarnefndar í dag þar sem rætt var um vændi og mansal.

Snorri sagði baráttuna gegn mansali og vændi vera frumkvæðisvinnu. Fórnarlömbin kæmu ekki að fyrrabragði til lögreglunnar. Ekkert mál væri að fela slíka starfsemi ef ekki væri leitað að henni. Vísbendingar væru um að vændi hefði stóraukist hér á landi en í því sambandi yrði engu að síður að hafa í huga að þetta hafi lítið verið kannað hér áður fyrr.

Meirihluti þeirra sem eru að stunda vændi er starfandi á höfuðborgarsvæðinu að sögn Snorra miðað við upplýsingar lögreglu en engu að síður væri einhver dreifing. Airbnb-húsnæði í skammtímaleigu sem er miðasvæðis á höfuðborgarsvæðisins er hvað vinsælast. Ekki síst húsnæði sem auðvelt er að komast til og frá án þess að það bæri mikið á því.

Flæðið frá stöðum þar sem vændi færi fram væri þannig mikið og því líklegt til þess að vekja athygli. Snorri sagði að það færiðist einnig í aukana að vændiskonum væri ekið heim til kaupenda vændis. Vændiskonur sem lögreglan hefði rætt við segðu allar að þær störfuðu sjálfstætt. Þeim hafi verið kennt að segja það ef lögreglan hefði afskipti af þeim.

Karlar neyddir til að fremja innbrot á Íslandi

Snorri sagði að flestar vændiskonur sem lögreglan hefði haft afskipti af kæmu frá Rúmerníu en einnig frá Búlgaríu. Lítið væri um íslenskar konur. Útlensku konurnar stoppuðu stutt við í landinu, 3-8 daga, og færu þá til hinna Norðurlandanna og kæmu svo aftur síðar. Sami sími væri oft notaður þannig að ein vændiskona léti aðra fá símann þegar hún færi.

Snorri sagði að útlenskar konur væru ekki aðeins gerðar út í vændi hér á landi í gegnum mansal heldur væru birtingarmyndir mansals ýmsar. Ein væri sú að ungir karlar væru fluttir inn til þess að stunda innbrot hér á landi. Lagði hann áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs þegar mansal og vændi væri annars vegar enda alþjóðlegt vandamál.

Vændisteymi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið styrkt að sögn Snorra og málaflokkurinn er ofar í forgangsröðinni en áður. Meira þyrfti hins vegar til en lögreglan gæti ekki gert það ein. Fræðsla hefði átt sér stað og þyrfti að halda áfram. Vitundarvakning skipti máli. Mikilvægt væri að almennir borgarar létu vita ef þeir yrðu varir við eitthvað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert