Fjölskylda og aðstandendur Hauks Hilmarssonar, sem er talinn hafa fallið í átökum í Sýrlandi í lok febrúar, fara fram á að utanríkisráðherra sjái til þess að haft verði beint samband við yfirvöld í Tyrklandi og NATO og upplýsinga aflað um það hvort Haukur er lífs eða liðinn. Enn fremur að ef Tyrkir séu með líkamsleifar Hauks, að utanríkisráðherra sjái til þess að þær verði sendar til Íslands.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem fjölskylda og aðstandendur Hauks hafa sent frá sér. Þau munu eiga fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra vegna málsins klukkan 15 í dag. Þau greina ennfremur frá því að mál Hauks sé rannsakað sem mannshvarf af hálfu lögreglunnar á Íslandi.
Fram kemur, að þau hafi hafi þann 8. mars beðið borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hér á landi, sem og lögreglu, um að hafa samband við yfirvöld í Tyrklandi til að fá staðfest að þau séu með líkið og reyna að fá það sent heim. Þau gagnrýna seinagang stjórnvalda.
Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, átti fund með borgaraþjónustunni í gær. Fjölskyldan greinir frá því, að ráðuneytið hafi þá verið búið að setja sig í samband við ýmis sendiráð og ræðismenn um víða veröld „en hafði engar tilraunir gert til að ná beinu sambandi við ráðuneyti í Tyrklandi, hernaðaryfirvöld eða lögreglu. Svo virðist sem ráðuneytið sé að bíða eftir því að ræðismenn hingað og þangað rannsaki málið eftir sínum eigin leiðum. Engin svör hafa fengist með því móti,“ segir í tilkynningunni.
„Það fékk mjög á fjölskyldu og vini Hauks, að sjá stjórnvöld fara með leitina að líki hans eins og um venjulegan óskilamun væri að ræða, sérstaklega í ljósi þess að þá höfðu komið fram sögur sem gáfu vonarglætu um að Haukur kynni að vera á lífi,“ segir ennfremur í tilkynningu fjölskyldunnar.
Þau gagnrýna ráðherra fyrir að hafa ekki viljað funda með þeim persónulega fyrr en þau settu á hann þrýsting.
„Markmið fundarins í dag er það er að gera utanríkisráðherra grein fyrir því að þegar ríki sem er í hernaðarsamstarfi við Ísland drepur íslenskan ríkisborgara, þá geti utanríkisráðherra ekki hegðað sér eins og hernaðaryfirvöld þess ríkis hafi skotið flækingshund. Við krefjumst þess að utanríkisráðherra sjái tafarlaust til þess að haft verði beint samband við yfirvöld í Tyrklandi og Nató og upplýsinga aflað um það hvort Haukur er lífs eða liðinn. Enn fremur að ef Tyrkir eru með líkamsleifar Hauks, sjái utanríkisráðherra til þess að þær verði sendar til Íslands,“ segir í tilkynningunni.