Ekki verði refsað fyrir umskurð drengja

Landlæknisembættið er alfarið á móti því að umskurður á drengjum …
Landlæknisembættið er alfarið á móti því að umskurður á drengjum falli undir hegningarlög. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Embætti landlæknis er eindregið á móti því að umskurður á drengjum falli undir hegningarlög.

Þetta kemur fram í umsögn Embættis landlæknis um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem myndu fela í sér bann við umskurði drengja.

Í umsögninni fagnar Embætti landlæknis því að Alþingi ræði breytingar á lögum varðandi umskurð á drengjum en er eindregið á móti því að umskurðurinn falli undir hegningarlög.

„Embættið er ósammála flutningsmönnum þegar þeir leggja að jöfnu „umskurð” á stúlkubörnum og konum og umskurð á drengjum. í nágrannalöndum okkar er ekki talað um „umskurð” á kynfærum stúlkna,“ segir í umsögninni.

„Svíar kalla slíkt á sinni tungu „könsstympning” meðan þeir tala um „omskárelse” hvað varðar drengi. Á íslensku þýðir orðið „könsstympning” nánast aflimun eða limlesting á kynfærum. Þetta er bannað samkvæmt hegningarlögum í nágrannalöndum okkar og sem betur fer einnig á Íslandi. Þessi hugtök er að mati embættisins ekki rétt að nota yfir umskurð á drengjum.“

Embætti landlæknis nefnir að flutningsmenn frumvarpið hafi talað um að umskurður drengja sé gerður af trúarlegum ástæðum í samfélagi gyðinga og múslíma. Bent er á að í stórum hluta Afríku er umskurður drengja gerður án trúarlegra ástæðna og fremur sem merki þess að drengur sé kominn í fullorðinna manna tölu. Í Bandaríkjunum og í sumum öðrum löndum er umskurður á drengjum gerður meira eð minna af hreinlætisástæðum vegna þess að aðgerðin er talin fyrirbyggja sjúkdóma. Þessi skoðun sé umdeild og telji flestir að engin vísindaleg rök liggi að baki henni.

„Það er álit Embættis landlæknis að trúarlegar og menningarlegar hliðar á þessu máli séu svo ríkar, að umskurður á forhúð drengja muni verða framkvæmdur um ófyrirsjáanlega framtíð óháð því hvaða afstöðu heilbrigðiskerfið og samfélagið að öðru leyti mun hafa til þess að leyfa þessa aðgerð. Það er því nauðsynlegt að löggjöf á þessu sviði sé gerð þannig úr garði að umskurður á drengjum valdi ekki barninu skaða“ segir í umsögninni.

Embætti landlæknis óttast að þingsályktunartillagan muni leiða til þess að þessar aðgerðir verði gerðar við aðstæður sem ekki tryggja öryggi þeirra barna sem um ræðir. Mælir Embætti landlæknis með því að horft sé til reynslu Svía þar sem bæði löggjafinn og Socialstyrelsen hafa sett fram skýrt regluverk um það hvenær, við hvað aðstæður og af hverjum þessar aðgerðir eru gerðar. Brot á þeim reglum varðar við hegningarlög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka