Vegna breytts stofnanalegs fyrirkomulags innan Evrópusambandsins, þar sem framkvæmdavald hefur í vaxandi mæli verið falið stofnunum á vegum sambandsins, hefur málum fjölgað þar sem ekki hefur verið hægt að fella löggjöf þess inn í tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Þetta kemur fram í svari frá norska utanríkisráðuneytinu til mbl.is.
Audun Halvorsen, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, sagði í samtali við norska fjölmiðla á dögunum að stundum hefðu verið farnar aðrar leiðir við innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) en tveggja stoða kerfið sem gerir ráð fyrir því að stofnanir á vegum EFTA sjái um eftirlit með framkvæmd samningsins í EFTA/EES-ríkjunum Noregi, Íslandi og Liechtenstein og stofnanir sambandsins innan þess.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Alþingi í síðasta mánuði að Evrópusambandið reyndi í vaxandi mæli að fá EFTA/EES-ríkin til þess að samþykkja að gangast beint undir yfirstjórn stofnana þess. Sagði hann þetta fara gegn tveggja stoða kerfinu sem væri grundvöllur EES-samningsins. Sagðist hann af þessum sökum telja tímabært að staða Íslands og annarra EFTA/EES-ríkja innan EES yrði tekin til skoðunar. Gagnrýndi hann ennfremur hin EFTA/EES-ríkin, Noreg og Liechtenstein, fyrir að láta undan kröfum Evrópusambandsins áður en ríkin þrjú hefðu komist að niðurstöðu. Halvorsen vísaði þeirri gagnrýni á bug.
„Það verður alltaf forgangsmál norskra stjórnvalda að virða og standa vörð um stofnanalega uppbyggingu EES-samningsins. Reynslan sýnir hins vegar að það er engin lausn til staðar sem hentar í öllum kringumstæðum og að hvert mál þarf að leysa á sínum eigin forsendum. Þetta kann einnig að fela í sér að í ákveðnum tilfellum sé bestu lausnina að finna fyrir utan hið hefðbundna tveggja stoða kerfi,“ segir ennfremur í svari utanríkisráðuneytisins.
Þar segir ennfremur að „þar sem stofnanalegt fyrirkomulag Evrópusambandsins hefur breyst mikið frá gildistöku EES-samningsins, þar sem (tæknileg) löggjöf færir í vaxandi mæli framkvæmdavald til stofnana á vegum þess, hefur reynslan sýnt að það kunni að vera erfitt eða óheppilegt að spegla fyllilega kerfið sem sett hefur verið á laggirnar innan Evrópusambandsins með EFTA-stoðinni.“
Ráðuneytið segir að við slíkar aðstæður geti aðilar EES-samningsins komist að samkomulagi um einnar stoðar kerfi þar sem EFTA/EES-ríkin feli stofnunum á vegum Evrópusambandsins að fara með ákveðin verkefni. Tekin eru þrjú dæmi um mál þar sem framkvæmdastjórn sambandsins hafi þannig verið falið ákvörðunarvald gagnvart EFTA/EES-ríkjunum. Varðandi samþykkt á lyfjum og kemískum efnum og nýjum matvælum, útblástur gróðurhúsalofttegunda og úrlausn deilumála vegna notkunar ökurita.