Hvorki gengur né rekur í kjaraviðræðum Ljósmæðrafélags Íslands (LMFÍ) við ríkið sem nú hafa staðið í rúmlega hálft ár. Frá upphafi hefur meginkrafa félagsins verið sú að menntun og ábyrgð ljósmæðra í starfi sé metin til launa og að laun ljósmæðra fylgi almennri launaþróun í landinu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ljósmæðrafélagi Íslands.
Þar kemur fram að ljósmæðrastarfið krefjist sex ára háskólanáms en að loknu sérnámi séu ljósmæðrum boðin lægri laun en standa hjúkrunarfræðingum til boða sem hafa 4 ára háskólanám að baki.
„Meiri menntun og viðbótarstarfsréttindi skila því lægri launum,“ kemur fram í yfirlýsingunni og bent er á að laun ljósmæðra hafi ekki fylgt almennri launaþróun á undanförnum misserum.
Fram kemur að viðbrögð ríkisvaldsins við kröfu ljósmæðra hafi einkennst af skilningsleysi og tómlæti. Þær starfi nær allar í vaktavinnu og álagið sé gríðarlegt. Það hafi mjög neikvæð áhrif á heilsu og hafi sumar þeirra neyðst til að hætta störfum vegna þess.
Um 275 ljósmæður eru starfandi á Íslandi, þar af eru 83 á sjötugsaldri. Eingöngu 17 eru á aldrinum 28 til 35 ára en þriðjungur ljósmæðra kemst á eftirlaunaaldur á næstu tíu árum.
„Til að taka á þessum vanda þarf að leiðrétta launakjör ljósmæðra og virða þá sjálfsögðu kröfu að laun hækki við viðbótarmenntun en lækki ekki eins og nú er raunin. Þá þarf minnka vinnuskyldu ljósmæðra í fullu starfi og færa hana til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Síðast en ekki síst þurfa heilbrigðisyfirvöld og yfirvöld menntamála að grípa til markvissra aðgerða til að fjölga ljósmæðrum svo takast megi að fylla skörð þeirra ljósmæðra sem láta munu af störfum á næstu árum.“