Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkið um rekstur sjúkrabíla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum. Ekki er ljóst hvort velferðarráðuneytið muni sjá um rekstur sjúkrabíla eða hvort hann verði boðinn út.
Þrjú ár eru síðan samningur ríkisins og Rauða krossins um endurnýjun og rekstur sjúkrabíla rann út og hafa samningar verið lausir upp frá því. Sjúkrabílarnir eru í eigu Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins sem jafnframt sér um rekstur þeirra. Haustið 2016, þegar samningur var nánast í höfn, kom óvænt útspil frá ráðuneytinu um að bílarnir skyldu vera í eigu ríkisins án frekari útfærslna á því hvernig það yrði útfært.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, átti síðast fund með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í janúar vegna rekstursins.
Frétt mbl.is: Vilji til að semja um rekstur sjúkrabíla
„Á síðustu vikum hefur orðið ljóst að stjórnvöld og ráðuneyti vilja taka yfir rekstur sjúkrabíla á næstu árum og því hefur Rauði krossinn á Íslandi ákveðið að slíta samstarfinu,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Rauði krossinn á Íslandi hefur átt og rekið sjúkrabíla í 90 ár og voru deildir Rauða krossins víða um land stofnaðar í kringum kaup á sjúkrabílum. Fyrst átti og rak Rauði krossinn sjúkrabílana einn í 70 ár en síðustu 20 ár samkvæmt samningi við íslenska ríkið með rekstri Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins. Rauði krossinn á nú 78 sjúkrabíla sem staðsettir eru víðs vegar um landið.
Í tilkynningu Rauða krossins kemur fram að rekstur Sjúkrabílasjóðs Rauða krossins hefur verið afar hagkvæmur. „Enginn arður hefur verið tekinn úr sjóðnum og settur í önnur verkefni, heldur ef rekstrarafgangur hefur verið hefur hann verið nýttur til fjárfestinga í nýjum bílum, tækjum og tólum eða til að lækka framlag ríkisins til sjóðsins.“