Yfirtaka hins opinbera á rekstri sjúkrabíla frá Rauða krossinum er mikilvægur áfangi í að einfalda kerfið að mati Stefáns Pálssonar, formanns Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS). Rauði krossinn á Íslandi hefur átt og rekið sjúkrabíla í 90 ár en samningar um áframhaldandi rekstur hafa verið lausir frá 2015.
Frétt mbl.is: Segja upp samningi um rekstur sjúkrabíla
„Einfaldara rekstrarumhverfi, færri kjarasamningar og skilvirkara vinnumumhverfi eru kostirnir við að færa kaup og rekstur sjúkraflutningabíla frá Rauða krossinum yfir til hins opinbera,“ er haft eftir Stefáni í tilkynningu frá LSS.
Haustið 2016 þegar samningur var nánast í höfn kom óvænt útspil frá heilbrigðisráðuneytinu um að bílarnir skyldu vera í eigu ríkisins án frekari útfærslna á því hvernig það yrði útfært.
Stefán telur hagkvæmast að allir sjúkraflutningar verði í framtíðinni á höndum ríkisins, en ríkið gæti síðan samið áfram við sveitarfélög í landinu um að annast þetta verkefni, fjármagn þurfi þó að fylgja með. Í tilkynningu frá LSS segir að slíkt hafi gefist vel og gefi einnig tækifæri til betri nýtingar á búnaði.
Sambandið telur einnig að bæta þurfi embætti yfirlæknis utanspítalaþjónustu á Íslandi, það embætti gæti haft málaflokkinn undir sínum hatti. „Það er eðlilegt að fagaðilarnir sjálfir, þ.e.a.s. sjúkraflutningamenn, hafi meira um það að segja hvernig þeirra starfsstöðvar eru útbúnar,“ segir í tilkynningu.
Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri LSS, segist fagna þessum fréttum og undirstrikar að þjóðin megi vera afar þakklát fyrir hið mikilvæga starf sem Rauði krossinn hefur innt af hendi í gegnum tíðina.
„Við erum afar þakklát fyrir þá vinnu sem nú er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu sem miðar að því að öðlast heildarsýn og ná utan um málaflokkinn og hluti af þessu er að einfalda rekstrarmódel sjúkrabíla í landinu,“ segir Hermann.