Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki kynnt embætti ríkissaksóknara skýrslu heilbrigðisráðherra um mótun og stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkefnum vímuefnaneyslu frá árinu 2016.
Dómsmálaráðuneytið hefur því framsent skýrsluna til embættis ríkissaksóknara sem tekur til sjálfstæðrar athugunar hvort breyta skuli reglunum á þá leið sem lagt er til í umræddri skýrslu.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnlaugssonar, þingmanns Pírata, um fíkniefnalagabrot á sakaskrá.
Þar spyr Helgi Hrafn hvort ráðherra hafi hafið undirbúning að reglubreytingu á þá leið að smávægileg fíkniefnalagabrot fari ekki á sakaskrá, samanber tillögur í skýrslu starfshópsins frá árinu 2016.
Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að það sé ríkissaksóknara en ekki dómsmálaráðherra að meta hvort breytinga á reglunum sé þörf og ef svo er að hafa frumkvæði að breytingum. Þess vegna hefur dómsmálaráðuneytið framsent ríkissaksóknara skýrsluna.