Arnar Þór Ingólfsson
„Við viljum halda forræði þjóðarinnar yfir stjórn peningamála og við viljum að áfram verði byggt á íslensku krónunni. Við höfnum þeirri hugmynd að taka upp aðra mynt og við höfnum þeirri hugmynd að Ísland eigi að ganga í ESB til að taka upp evruna.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í setningarræðu sinni á landsfundi flokksins í Laugardalshöll síðdegis í gær. Bjarni sagði að þrátt fyrir að það væri krefjandi verkefni að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli væru kostirnir við það mikilvægari en gallarnir. Það gæti orðið efnahagslega hættulegt ef gengi og vextir endurspegluðu ekki þann veruleika sem við byggjum við hér á landi og sagði að krónan gerði íslensku þjóðinni kleift að mæta búhnykkjum, jafnt sem áföllum.
Þá boðaði Bjarni lækkun tekjuskatts og lækkun tryggingagjalds í ræðu sinni, í takt við efni stjórnarsáttmálans, að því er fram kemur í umfjöllun um landsfundinn í Morgunblaðinu í dag.