Ríkisstjórn Íslands íhugar að sniðganga heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fer fram í Rússlandi í sumar. Með þessu vill hún styðja Breta sem saka Rússa um að hafa eitrað fyrir rússneskan gagnnjósnara og dóttur hans á breskri grund. Þó ert skýrt að leikmenn og aðdáendur verða á sínum stað.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, segir að málið verði rætt meðal bandalagsþjóða Íslands og endanleg ákvörðun liggi ekki fyrir.
„Þetta eru grafalvarlegir hlutir sem tengjast ekki bara Bretum. Hver niðurstaðan verður á eftir að koma í ljós. Okkar lið og aðdáendur mæta,“ sagði Guðlaugur við RÚV.
Spurður hvort íslenskir ráðamenn fari ekki til Rússlands sagði hann að málið væri í skoðun. Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik sínum í Moskvu 16. júní.