Það er einstaklega ánægjulegt, verandi á Íslandi, að skoða hitastigið í nokkrum borgum Evrópu og víðar nú í morgun. Hitinn í Reykjavík klukkan 10 var 5°C og því hlýrra í höfuðborginni okkar en í Ósló, London, New York, París, Amsterdam, Berlín og Boston svo dæmi séu tekin. Hér er vor í lofti en víða annars staðar hefur hret hrellt íbúa og ferðamenn.
Í Berlín, Helsinki og París var 1 stigs hiti klukkan 11 að staðartíma í morgun (10 að íslenskum tíma). Í Boston var 6 stiga frost en þá var klukkan 6 að morgni að staðartíma. Í Ósló var 3 stiga frost og í London var hitinn við frostmark en þar líkt og víðar á Bretlandseyjum snjóaði um helgina. Í New York var 2 stiga hiti klukkan 6 að staðartíma í morgun.
Engu þarf að kvíða í veðrinu hér á landi næstu daga. Áfram verður hlýtt í veðri, allt að tíu stiga hiti.