„Það kæmi mér ekki á óvart að breskir diplómatar væru að vinna bak við tjöldin og færu þess á leit við aðildarríki NATO að þau sýndu Bretlandi samstöðu og mótmæltu framferði Rússa,“ segir Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur, um þann möguleika að ríkisstjórnin sniðgangi HM í Rússlandi í sumar.
Ástæðan fyrir því að ríkisstjórn Íslands íhugar að sniðganga heimsmeistaramótið í knattspyrnu er stuðningur við Breta sem saka Rússa um að hafa eitrað fyrir rússneskum gagnnjósnara og dóttur hans á breskri grund. Bretar munu ekki senda stjórnmálamenn og þjóðhöfðingja á Heimsmeistaramótið í Rússlandi sem hefst í júní.
Bretar vísa 23 rússneskum stjórnarerindrekum úr landi vegna málsins. Baldur bendir á að þessar aðgerðir Breta séu ekki dramatískar og í raun hefðbundin diplómatísk viðbrögð.
„Ef þetta er rétt sem bresk stjórnvöld og virtir rannsóknarmiðlar halda fram að rússnesk stjórnvöld og rússneska mafían noti efnavopn á götum borga Bretlands og standi á bak við jafnvel 14 undarleg dauðsföll Rússa í Bretlandi þá eru viðbrögð breskra stjórnvalda ekki mjög dramatísk,” segir Baldur. Í því ljósi kæmi það honum ekki á óvart að breskir diplómatar væru að vinna í því að fá önnur ríki til að gera slíkt hið sama.
Guðlaugur Þór greindi frá því í gær að það væri skýrt að leikmenn og aðdáendur verða á sínum stað. Baldur bendir á að einstaka þingmenn í breska þinginu hafa kallað eftir því að íþróttamenn sniðgangi leikana. „Við eigum hins vegar eftir að sjá hvernig þessu máli vindur fram,“ segir Baldur.
Sambærileg umræða kom upp hér á landi árið 2008 þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Peking í Kína. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, velti því upp hvort íslenskir ráðamenn ættu að sniðganga Ólympíuleikana til að mótmæla framgöngu Kínverja í garð íbúa Tíbet. Hins vegar kepptu íslenskir íþróttamenn á leikunum og íslenskir stjórnmálamenn mættu.