Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fer fram á 16 ára fangelsisdóm yfir Khaled Cairo fyrir að hafa orðið Sanitu Brauna að bana á Hagamel í september í fyrra. Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Cairo, fór fram á að skjólstæðingi hans yrði ekki gerð refsing vegna þess að hann sé ósakhæfur.
Bæði röktu þau Kolbrún og Vilhjálmur málið en aðalmeðferð í því hefur farið fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Kolbrún taldi ljóst að ákærði hefði játað að hann hefði veist að Sanitu, jafn langt og minni hans næði. Hún rakti sögu þeirra en þau kynntust á samfélagsmiðlum og hittust 21. júlí og stunduðu kynlíf. Eftir það reyndi ákærði að halda sambandi áfram en Sanita sýndi honum ekki áhuga.
Kolbrún lýsti því þá þegar Chairo sendi Sanitu skilaboð sem hún hafi ekki svarað. Nágrannar hennar hafi síðan hleypt honum inn í íbúð hennar en hún var ekki heima. Þar hafi hann séð síma og tölvu og séð að hún hafi verið í samskiptum við aðra menn. Lýsir Kolbrún því þá að Chairo hafi orðið reiður og afbrýðissamur og farið að drekka mikið.
Sanita vill að hann fari þegar hún kemur inn og sér Chairo. Þar hafi hann slegið hana tvívegis áður en hann missti algjörlega stjórn á sér og kveðst ekki muna meir hvað gerðist.
„Engin gögn benda til þessa að ákærði sé ósakhæfur. Menn verða ekki ósakhæfir þó þeir séu undir miklum áhrifum áfengis eða séu afbrýðissamir,“ sagði Kolbrún og vísaði í frambúð geðlækna sem komu fyrir dóm í dag.
„Hann var ekki í neinu ástarsambandi við konuna og hefur ekki sýnt neina iðrun,“ bætti hún við.
Dómur verður kveðinn upp í málinu 18. apríl.