Karlmaður í annarlegu ástandi var handtekinn á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri í nótt. Maðurinn kom fyrst inn á biðstofu á slysadeild og gekk þar berserksgang áður en hann lagði leið sína inn á sjúkrahúsið og komst inn á fæðingardeildina.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Akureyri barst tilkynning um manninn um klukkan 3.40 í nótt. Þá hafði hann komið inn á biðstofu á sjúkrahúsinu, brotið innanstokksmuni og rokið svo út. Þar braut hann rúðu og komst inn á sjúkrahúsið sjálft og gekk þar um ganga þar til hann endaði á fæðingardeild spítalans.
Þar var hann handtekinn og fluttur í fangaklefa. Hann verður yfirheyrður þegar ástand hans lagast en maðurinn á við veikindi að stríða.
Lögreglan segir að enginn hafi slasast.