Jarðvegsframkvæmdir eru hafnar á lóðinni við Keilugranda 1-11 í Vesturbæ Reykjavíkur. Þarna mun húsnæðissamvinnufélagið Búseti reisa alls 13 hús, stór og smá, með samtals 78 íbúðum.
Jarðvegsrannsóknir hafa farið fram og leiddu niðurstöður þeirra í ljós að grundun húsanna þarf að fara fram með niðurrekstri á súlum sem munu mynda undirstöður húsanna.
Um er að ræða u.þ.b. 240 forsteyptar súlur sem verða reknar niður að meðaltali átta metra niður í klöpp. Búseti hefur samið við fyrirtækið Ístak um framkvæmdina. Samkvæmt verkáætlun á framkvæmdum að ljúka um mánaðamótin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.