Sagði að hún hefði átt þetta skilið

Khaled Cairo við þingfestingu Hagamelsmálsins í desember.
Khaled Cairo við þingfestingu Hagamelsmálsins í desember. mbl.is/Hari

Leifur Halldórsson rannsóknarlögreglumaður, sem fór með rannsókn málsins þegar Sanita Brauna var myrt á Hagamel síðasta haust, sagði að ákærði hefði verið óvenju glaðlegur við skýrslutökur vegna málsins.

Leifur sagði að ákærði, Khaled Cario, hefði verið talsvert ölvaður um kvöldið og ekki tilbúinn í skýrslutöku. Ákærði hafi verið blóðugur frá hvirfli til ilja og eingöngu klæddur í nærbuxur.

Ákærði var stóryrtur

„Hann hafði uppi stór orð um samskipti sín við brotaþola um að hún hefði leikið sér að tilfinningum hans og eins og hann sagði: „she fucked a nigger" og því hefði hann þurft að gera það sem hann gerði,“ sagði Leifur við aðalmeðferð málsins í dag.

Hann bætir því við að ákærði hefði sagt þetta við hann þegar Leifur bauð honum lögmann og sagði honum hvernig málið lægi. 

Leifur var viðstaddur hluta af læknisskoðun á ákærða og þar hafi hann haldið sömu hegðun áfram. „Hann var mjög hress og minnti á mann sem var að koma úr góðu partíi og virtist vera glaður með það sem hafði gerst,“ sagði Leifur og bætti við að hann væri ekki viss hvort hann væri hress vegna áfengisáhrifa eða hvort það væri eitthvað að manninum andlega.

Verjandi ákærða spurði Leif nánar út í hvað hann meinti með því að eitthvað gæti verið andlega að ákærða. Leifur sagði að hans hegðun á þessum tímapunkti, þegar eitthvað svona hræðilegt hafði gerst, fengi menn til að velta því fyrir sér hvort það væru einhverjir andlegir annmarkar á ferðinni.

Kannast ekki við að hafa myrt Sanitu

Aðspurður sagði Leifur að honum virtist sem ákærði áttaði sig á atburðum kvöldsins. „Hann talaði beint um að hann hefði ráðist á hana og hún hefði átt það skilið vegna þess að hún hefði lagst með svörtum manni, sagði hann. Hvort hann áttaði sig á því að hún væri látin er ég ekki alveg viss um.“

Leifur sagði að ákærði hefði hagað sér eðlilega í skýrslutöku daginn eftir og að hann væri glaðlyndur maður að eðlisfari. Hann vildi hins vegar ekki kannast við að hún væri látin í skýrslutökum og talaði um læknamistök ef það hafði gerst.

Gengur ákærði heill til skógar?

Leifur hugsaði sig vel um þegar verjandi ákærða spurði hvort hann teldi að Khaled gengi heill til skógar. 

Hver er skilgreingin á því að ganga heill til skógar? Ganga ég og þú heilir til skógar? Ég get engan vegin lagt mat á þetta. Þetta voru ekki eðlileg viðbrögð en að öðru leyti fúnkerar hann vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert