Telja Cairo sakhæfan

Khaled Cairo við þingfestingu Hagamelsmálsins.
Khaled Cairo við þingfestingu Hagamelsmálsins. mbl.is/Hari

Tveir geðlæknar báru vitni fyrir dómi í dag og lýstu þeir því báðir að Khaled Cairo væri sakhæfur. Annar geðlæknirinn taldi líklegt að hlátur Cairo við skýrslutöku væri varnarviðbrögð frekar en geðrof eða eitthvað slíkt.

Nanna Briem lýsti því að hún og annar geðlæknir hefðu átt þrjú samtöl við Cairo á Litla-Hrauni. „Niðurstaða okkar er sú að Khaled Cairo er sakhæfur,“ sagði Nanna fyrir dómi.

Hún sagði að þau hefðu ekki séð mikil merki um iðrun og samkennd hjá honum og væri viðkvæmur fyrir höfnun.

Sló hana tveimur höggum áður en hann missti stjórn á sér

Nanna lýsti því hvernig Cairo útskýrði fyrir henni hans hlið frá kvöldinu þegar Sanita Brauna lést. „Áður en hann missti alveg stjórn á sér sló hann hana tvisvar. Hvort högg um sig var fyrir þá menn sem hún var í sambandi við og höggin voru í refsingaskyni. Þegar vitnið birtist í dyragættinni missti hann endanlega stjórn á sér,“ sagði Nanna þegar hún lýsti því sem Cairo sagði.

Spurð hvort hann hefði verið reiður vegna þess að maðurinn sem birtist í dyragættinni er svartur sagðist hún eiga erfitt með að dæma það út frá samtölum þeirra. Hins vegar var ljóst að hann var verulega ósáttur.

Mikil reiði og afbrýðissemi

Sigurður Páll Pálsson geðlæknir hitti ákærða fimm sinnum. Sigurður sagði fyrir dómi að honum fyndist ákærði hreinn og beinn og geðskoðun hans hefði verið eðlileg. Ákærði hefði þó verið svolítið ör og hann hefði sjálfur lýst mikilli reiði og afbrýðissemi sem gerði hann nánast ómannlegan.

Mitt mat er að hann er sakhæfur,“ sagði Sigurður.

„Hann var ósáttur við að hún hafi verið í sambandi við aðra menn og hann upplifði þetta sem samband af sinni hálfu. Hann sagði að þau hefðu einu sinni sofið saman og eftir það væri þetta mest á netinu,“ sagði Sigurður þegar hann lýsti því sem Cairo ræddi við hann.

Hann sagði, líkt og Nanna, að Cairo hefði orðið gríðarlega reiður og misst stjórn á sér undir áhrifum áfengis kvöldið þegar Sanita var myrt. „Hann kennir henni um að hann missti sig,“ sagði Sigurður.

Líklega manndráp

Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur framkvæmdi krufningu á Sanitu 25. september í fyrra. Hann sagði dánarorsök blóðleysi til höfuðs sökum höfuðhögga en auk þess mætti finna áverka á hálsi eftir kyrkingar og það gæti verið meðvirkur þáttur.

Hann sýndi fjölda mynda þar sem mátti sjá áverka sem Sanita varð fyrir kvöldið sem hún lést. Hann sagði nokkuð ljóst að andlátið hefði borið að með óeðlilegum hætti og líklega væri um manndráp að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert