„Það er blóð úti um allt“

Frá lögregluaðgerðum á Hagamel í september í fyrra.
Frá lögregluaðgerðum á Hagamel í september í fyrra. mbl.is/Golli

„Það er brjálaður maður hérna inni,“ heyrist nágranni Sanitu Brauna segja þegar hann hringir í neyðarlínuna kvöldið sem Sanita lét lífið. Símtalið var spilað við aðalmeðferð þar sem Khaled Cairo er ákærður fyrir morðið á Sanitu Brauna.

Nágranni Sanitu reynir að ræða við starfsmann neyðarnlínunnar um hver staðan sé heima hjá honum og hvað hann eigi að gera. Í bakgrunni heyrist Sanita öskra og biðjast vægðar.

Starfsmaður neyðarlínunnar spyr hvort maðurinn sé að berja konuna og nágranninn svarar því játandi og segist þurfa aðstoð sem fyrst.

„Ég held að hann sé að reyna að drepa hana núna. Hann segir „þú verður að deyja.“ Ég verð að fara fram, hann er að kæfa hana,“ segir nágranninn skyndilega.

Starfsmaður neyðarlínunnar hvetur hann áfram og í framhaldinu heyrist nágranninn rífast við ákærða: „Hvað ertu að gera? spyr nágranninn Cairo, sem svarar á móti með hótunum um að hann megi alls ekki hringja í lögregluna.

„Hann er að lemja hana hérna með slökkvitæki, það er blóð úti um allt,“ er það síðasta sem heyrist í símtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka