Mál Hauks í algerum forgangi hjá ráðuneytinu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mál Hauks Hilmarssonar var sett í algeran forgang í utanríkisráðuneytinu eftir að formleg beiðni barst frá fjölskyldu hans 7. mars og hefur verið unnið að því í ráðuneytinu að reyna að varpa ljósi á málið síðan. Þetta kom fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata. Þórhildur óskaði upplýsinga um vinnu ráðuneytisins í þessum efnum.

Vinna utanríkisráðuneytisins hófst þó daginn áður en formleg aðstoðarbeiðni barst en 6. mars, þegar fyrstu fregnir bárust um að Haukur hefði fallið í Sýrlandi, hafði ráðuneytið samband við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra og ræðismenn Íslands á svæðinu að sögn Guðlaugs Þórs. Sama dag og beiðnin barst var meðal annars til ríkja sem hafa reynslu af svipuðum málum en um einstakt mál er að ræða að sögn ráðherra fyrir utanríkisþjónustuna.

Guðlaugur sagði að um leið og fregnir hafi borist af því að Tyrkir kynnu að hafa Hauk í haldi hafi verið haft samband við Tyrki í gegnum sendiráð Tyrklands í Osló sem sé æðsti fulltrúi tyrkneskra stjórnvalda gagnvart Íslandi. Ráðherra sagði að síðan hafi íslensk og tyrknesk stjórnvöld verið í stöðugu sambandi eftir ýmsum leiðum. Málið hafi verið tekið upp við utanríkisráðherra, varnarmálaráðherra og fjölskyldumálaráðherra Tyrklands. 

Starfsmenn borgaraþjónustunnar, sem séu færustu starfsmenn utanríkisþjónustunnar til að sinna málum eins og máli Hauks vegna tengsla þeirra og reynslu, hafi sinnt málinu en auk þeirra hafi um 30 manns komið að málinu. Guðlaugur sagði það samsvara ríflega 10% alls starfsliðs utanríkisþjónustunnar. Ekki hefði enn borist óyggjandi staðfesting á afdrifum Hauks en stjórnvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til þess að hafa uppi á honum.

Guðlagur Þór sagði samstarfsríki Íslands sem leitað hafi verið til og sem hafi reynslu af slíkum málum hafi öll varað við að staðan sé einstaklega flókin, erfitt sé að afla upplýsinga og enn erfiðara að veita aðstoð. Borgarar þessara ríkja, þar með talið hinna Norðurlandanna, ferðuðust á eigin ábyrgð á svæðum sem stjórnvöld vörðuðu við að heimsækja og geti því ekki búist við aðstoð ef eitthvað komi upp á. Það væri ekki viðmið íslenskra stjórnvalda.

„Máli Hauks hefur verið sinnt af kostgæfni. Við erum öll í sama liði og leggjum okkur fram við að finna Hauk,“ sagði utanríkisráðherra ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert