„Hafa ísraelsk stjórnvöld sett sig í samband við utanríkisráðuneytið vegna frumvarps um að gera umskurð drengja refsiverðan samkvæmt hegningarlögum? Ef svo er, hver voru skilaboð ísraelskra stjórnvalda?“
Þannig spyr Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, meðal annars í skriflegri fyrirspurn til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra þar sem hann vísar til frumvarps til breytinga á almennum hegningarlögum þess efnis að umskurður ungra drengja verði gerður refsiverður.
Birgir spyr ennfremur hvort utanríkisráðuneytið hafi fengið skilaboð um að málið geti haft áhrif á samskipti Íslands og Ísraels og hvort önnur ríki, trúfélög, hópar eða einstaklingar hafi haft samband við ráðuneytið vegna frumvarpsins. Þá hvaða ríki, hverjir og hver skilaboð þeirra hafi verið?
Þingmaðurinn spyr að lokum hvort utanríkisráðherra telji að málið geti haft áhrif á viðskiptahagsmuni íslenska ríkisins og íslenskra lögaðila og þá hver.