Móðir fatlaðrar konu hefur verið ákærð fyrir líflátshótun gegn þjálfara dóttur sinnar. Í Fréttablaðinu í dag um málið kemur fram að umræddur þjálfari sé grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn þroskaskertum konum sem hann þjálfaði.
Í frétt Fréttablaðsins segir að maðurinn hafi lengi starfað sem boccia-þjálfari. Hann hafi átt í nánum samböndum við iðkendur, m.a. útvegað þeim húsnæði og unnið sér inn traust þeirra. Kæra á hendur manninum var lögð fram árið 2015 og er málið nú á borði héraðssaksóknara. Ekki hefur verið ákveðið hvort maðurinn verði ákærður, segir í Fréttablaðinu í dag sem fjallar ítarlega um málið.