Nauðgun liggi ekki frjálst samþykki fyrir

mbl.is/Kristinn Magnússon

Samþykkt var með 48 samhljóða atkvæðum á Alþingi í dag að breyta skilgreiningu á nauðgun í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga þannig að í henni felist kynmök án samþykkis. Ennfremur að samþykki þurfi að hafa verið tjáð af fúsum og frjálsum vilja.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins var Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, en meðflutningsmenn hans komu úr röðum Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Pírata og Framsóknarflokksins. Jón Steindór sagði við atkvæðagreiðsluna að frumvarpið væri liður í að breyta viðhorfum sem feðraveldi fortíðar hefði skapað.

„Það er löngu kominn tími til að hverfa frá þeim karllægu sjónarmiðum sem endurspeglast víða, að við tilteknar aðstæður eigi karlmaður nánast rétt á kynlífi með konu. Við þurfum að breyta lögunum til samræmis við réttarvitund almennings og beita þeim til þess að breyta viðhorfum og hafa áhrif til hins betra á þessu mikilvæga sviði mannlífsins.“

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist telja að breytingin ætti eftir að skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag.

„Við erum að gefa tóninn um það að þegar kynmök eru stunduð verða báðir eða allir aðilar að vera til í það. Ég held að þetta eigi eftir að hafa mikið forvarnagildi inn í framtíðina. Ég vona að við höldum áfram á sömu braut. Þetta er mikilvægt skref. Svo þurfum við að halda áfram til þess að útrýma kynferðislegu ofbeldi í okkar samfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert