Kristín Sif vann silfur á Norðurlandamóti

Kristín Sif Björgvinsdóttir vann í dag til silfurverðlauna á Norðurlandamótinu í hnefaleikum sem haldið var í Ósló í Noregi. Hún mætti Julie Holte frá Noregi í undanúrslitum og sigraði eftir einróma dómaraákvörðun. Í úrslitunum í dag var andstæðingurinn Love Holgersson frá Svíþjóð en hún reyndist of stór biti.

Er þetta í þriðja sinn sem Íslendingur hlýtur verðlaun á Norðurlandamótinu í boxi. Kolbeinn Kristinsson hlaut silfur á Norðurlandamótinu 2013 og Valgerður Guðsteinsdóttir náði bronsi árið 2016.

Gott silfur, gulli betra.
Gott silfur, gulli betra. Ljósmynd/Aðsend

 

Ekki er nema rúmt ár síðan Kristín hóf að boxa. „Þetta voru þriðji og fjórði bardaginn minn í boxinu,“ segir Kristín. Hún leiddist inn í boxið eftir að hafa byrjað í víkingaþreki í Mjölni. „Ég kem úr crossfiti, þannig að ég hugsaði með mér að það væri óþarfi að fara á sex vikna grunnnámskeið áður en ég byrjaði í víkingaþrekinu. Ég ákvað að fara bara til þjálfara og þar var yfirþjálfarinn í boxinu, Steinar Thors, sem vildi endilega fá mig á grunnnámskeið í boxinu, sem ég gerði. Ég hef ekki litið til baka síðan,“ segir Kristín sem æfir box fimm sinnum í viku.

Kristín í hringnum.
Kristín í hringnum. Ljósmynd/Aðsend

Hún er í keppnishóp hjá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur og mætir í þrjá tíma í viku þangað auk tveggja einkatíma hjá Gunnari Kolbeini, eina atvinnumanni okkar Íslendinga í hnefaleikum.

Kristín segir að það geti verið erfitt að finna mótherja á Íslandi vegna þess hve fáir æfa íþróttina hér. „Ég hef reyndar dálítið æft með Valgerði [Guðsteinsdóttur] sem fór út og keppti um heimsmeistaratitilinn fyrir stuttu síðan. Þannig fæ ég reynsluna mína.“

Kristín er ekki við eina fjölina felld. Hún er einnig útvarpsmaður á K100 og er í loftinu allar helgar. Aðspurð segir hún það fara vel saman. Þegar það er skemmtilegt þá er þetta ekkert mál,“ segir hún, en viðurkennir að hún þurfi að skipuleggja sig vel. Hún er þó rétt að byrja. „Ég stefni bara hærra.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert