Heildartekjur vegna íslenska tónlistariðnaðarins námu alls 3,5 milljörðum króna á árunum 2015 til 2016, auk þess sem afleiddar tekjur voru 2,8 milljarðar árið 2017. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á hagrænu umhverfi tónlistar á Íslandi sem sett var í gang af Samtóni og ÚTÓN ásamt ANR á síðasta ári.
Af heildartekjum nemur lifandi flutningur 57 prósentustigum, höfundarréttur 22% og hljóðrituð tónlist 21%. Afleiddar tekjur, sem námu 2,8 milljörðum árið 2017, eru tekjur til samfélagsins vegna komu tónlistarferðamanna til landsins.
Erlendir gestir voru á bilinu 4 til 56% af heildarfjölda gesta á stærstu tónlistarhátíðum ársins, en hæst var hlutfallið á Iceland Airwaves hátíðinni. Þar á eftir var hæsta hlutfallið á Secret Solstice hátíðinni og svo á Sónar Reykjavík.
Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að tónlistarmenn fá að jafnaði greiddar um 50 þúsund krónur fyrir hverja tónleika erlendis. Meðalkostnaður tónlistarmanna við að ferðast erlendis til að halda tónleika er á bilinu 33 til 96 þúsund krónur á einstakling.
Vert er að taka fram að rannsóknin náði ekki til stærstu tónlistarmanna þjóðarinnar, sem eru með höfundarréttar- og útgáfusamninga erlendis og greiða sumir ekki skatta hér á landi.