Mótmæla gjaldtöku á salerni í Mjódd

Al­menn­ings­sal­erni hafa verið opnuð á ný við skiptistöð Strætó í …
Al­menn­ings­sal­erni hafa verið opnuð á ný við skiptistöð Strætó í Mjódd og kostar 200 krónur að nota aðstöðuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt, eru mótfallin því að salerni sem ætluð eru notendum strætó séu einkavædd með auknum kostnaði fyrir þá sem nota þjónustuna. „Það er til skammar að græðgisvæðing nútímans sé slík að hún nái nú einnig yfir líkamsstarfsemi fólks,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.

Al­menn­ings­sal­erni voru opnuð á ný við skiptistöð Strætó í Mjódd á föstu­dag. Einka­hluta­fé­lag í eigu Verkís og Bergrisa mun sjá um rekst­ur sal­ern­is­ins og kostar tvö hundruð krón­ur að nota sal­ern­in.

Frétt mbl.is: 200 krónur á klósettið í Mjódd

Samtökin benda á að börn, unglingar og þeir tekjulægstu í samfélaginu séu meðal þeirra hópa sem nýta almenningssamgöngur hvað mest og því ætti það að vera sjálfsögð þjónusta við notendur að tryggja þeim frían aðgang að snyrtingu, þurfi þeir á henni að halda.

„Þó svo að það sé þekktur vandi að gengið sé illa um klósett sem ætluð eru almenningi þá er lausnin ekki fólgin í því að refsa öllum og þá sérstaklega þeim sem ganga vel um og hlýta lögum og reglum samfélagsins á sama tíma og þeir eru útilokaðir frá velferðarsamfélagi okkar með lágum launum/lífeyri, sköttum, skerðingum og skömm,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

Þá telja samtökin að með gjaldtökunni sé verið að leggja aukaálögur á fátækt fólk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert