Farþegar verða að bóka stæðin á netinu

Þeir sem ætla að leggja bílnum sínum við Keflavíkurflugvöll og …
Þeir sem ætla að leggja bílnum sínum við Keflavíkurflugvöll og halda til útlanda ættu að drífa sig í að bóka stæðið á netinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Frá og með deginum í dag og fram yfir páska þurfa þeir sem ætla að leggja bifreiðum sínum í langtímastæði á Keflavíkurflugvelli að bóka stæðið fyrir fram á netinu.

Ekki er lengur hægt að mæta á svæðið og keyra beint inn á langtímastæðið, samkvæmt Guðjóni Helgasyni, upplýsingafulltrúa Isavia.

„Þau eru orðin það þétt setin að stæðin sem eru eftir eru einungis fyrir þá sem eru búnir að bóka á netinu,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is, en um páskana í fyrra yfirfylltust stæðin og nú er verið að tryggja að það séu nógu mörg stæði fyrir þá sem hafa þegar bókað á netinu.

Þeim, sem hafa komið á flugvöllinn í dag og ætlað að fara beint í stæðin án þess að hafa bókað fyrir fram, hefur verið bent á að bóka stæði á netinu á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert