Lífshættuleg tilfelli tilkynnt lögreglu

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Nei, þetta kemur ekki oft fyrir en við sjáum þetta einstaka sinnum. Þetta eru ekki nema fáein tilfelli á ári,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala, spurður um hvort það sé algengt að sjúklingar leiti til spítalans vegna fylgikvilla nálastungumeðferða.

Embætti landlæknis greindi frá því í dag að þunguð kona hefði leitað til bráðamóttöku Landspítalans nýlega í bráðri lífshættu eftir að hafa undirgengist nálastungumeðferð sem ætlað var að koma í veg fyrir ógleði á meðgöngu.

Jón Magnús segir að slík mál, þar sem sjúklingar lendi í lífshættu vegna hjálækninga af einhverju tagi, séu bæði tilkynnt til embættis landlæknis og lögreglu.

„Almennt ef að sjúklingar koma á bráðamóttökuna sem orðið hafa fyrir skaða af einhvers konar hjálækningum er það tilkynnt til landlæknis og ef að um er að ræða alvarlegan skaða, sem mögulega er lífshættulegur, þá er það líka tilkynnt til lögreglu. Þetta er svona almennt verklag óháð því hvers konar hjálækningar það eru.“

Nálinni stungið of djúpt

Þungaða konan var með svokallað loftbrjóst, sem er þekktur fylgikvilli nálastungumeðferða á bol og hálsi. Jón Magnús segir að hann sjálfur viti ekki til þess að sjúklingur með áverka af þessu tagi vegna nálastungumeðferðar hafi leitað til bráðamóttöku Landspítala.

„Þessir áverkar verða við það að nálinni er stungið of djúpt og lendir þá á lunganu og kemur gat á lungað og loft lekur út þaðan,“ segir Jón. Aðspurður segir hann að sjúklingur taki eftir einkennunum á „einhverjum mínútum til klukkutímum,“ eftir að nálin stingst í lungað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert