Keflavíkurflugvelli er þjónað af almenningssamgöngum, strætóleið númer 55, sem gengur frá morgni til kvölds sjö daga vikunnar. Þrátt fyrir það eru engin skilti inni í flugstöðinni sem benda komufarþegum á það hvar stoppistöðina sé að finna. Farþegum er bent á hvert þeir skuli halda vilji þeir ná leigubíl, flugrútu, en hvergi kemur fram að almenningssamgöngur séu í boði. Þetta mun breytast fljótlega, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia.
„Fulltrúar okkar eru búnir að eiga fund með Strætó og fulltrúum sveitarfélaganna,“ segir Guðjón. Í framhaldi af þeim fundi hafi verið farið í að hanna skiltin, en þau séu ekki enn tilbúin. Hann segir að um verði að ræða svokölluð „hér ert þú-skilti,“ og þar verði stoppistöð Strætó merkt inn á sama hátt og aðrir samgöngumöguleikar frá flugstöðinni.
Berglind Kristinsdóttir formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem kemur að rekstri strætóleiðar númer 55, hefur um nokkurt skeið lýst yfir óánægju með lítinn sýnileika Strætó í komusalnum og kallaði strætóferðirnar til Keflavíkurflugvallar „eitt best geymda leyndarmálið“ í samgöngum til Keflavíkurflugvallar í frétt Vísis um málið í haust. Nú hafi Isavia hins vegar lofað að bæta úr.
„Þeir lofuðu úrbótum og að almenningssamgöngur væru merktar með sama hætti og aðrar samgöngur á vegvísakorti inni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar,“ segir Berglind við mbl.is. Hún segist treysta því að unnið sé að því eins og rætt var um og að „þetta verði komið í betra ástand sem fyrst.“