Húsbíll fauk á hliðina undir Vatnajökli

Fjarðarheiði er nú lokuð vegna veðurs.
Fjarðarheiði er nú lokuð vegna veðurs. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Björgunarsveitin Kári í Öræfum var kölluð út í nótt til að aðstoða húsbíl sem fauk á hliðina skammt austan við Skaftafell. Fjórir voru í bílnum og slapp fólkið ómeitt frá veltunni, en mjög hvasst hefur verið á svæðinu og hafa vindhviður mælst yfir 40 m/s auk þess sem sandfok er á Skeiðarársandi.  

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir atvikið hafa átt sér stað um fimmleytið í morgun og að björgunarsveitarmenn hafi skutlað ferðalöngunum á hótel.

Þjóðvegi 1 um Skeiðar­ársand og í Öræf­um var lokað í morgun vegna veðurs og er gert ráð fyrir að lok­un­in standi fram á miðjan dag.

Einnig eru hviður á bil­inu 35-40 m/​s  í Mýr­dal og und­ir Aust­ur-Eyja­fjöll­um fram eft­ir degi.  

Björgunarsveitir á Austurlandi hafa einnig komið ökumönnum til aðstoðar nú í morgun. Fjarðar­heiði var lokað vegna veðurs í morgun og hafa björgunarsveitir á Héraði og Seyðisfirði verið að aðstoða ökumenn sem lentu í vandræðum á þeirri leið, en hríðarveður er á heiðinni og ekk­ert skyggni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert