Lóan er komin

Fyrsta lóa ársins sást fyrir sunnan Selfoss í morgun, en …
Fyrsta lóa ársins sást fyrir sunnan Selfoss í morgun, en það var Haraldur Ólason fuglaáhugamaður sem sá hana á flugi við hús sitt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrsta heiðlóa árs­ins sást nú í morg­un við Tjarna­byggð milli Sel­foss og Eyr­ar­bakka. Það var Har­ald­ur Ólason, húsa­smíðameist­ari og fugla­áhugamaður, sem tók eft­ir fugl­in­um, en fyrsta lóan er í seinna falli í ár miðað við síðustu 20 ár.

Har­ald­ur seg­ir í sam­tali við mbl.is að hann hafi séð ló­una út um glugg­ann á heim­ili sínu í Tjarna­byggð í morg­un. Hún hafi komið á flugi og flogið fram­hjá hús­inu. Seg­ist hann hand­viss að um heiðlóu hafi verið að ræða, enda þekki hann lóur og aðra fugla eins og hönd­ina á sér. Síðar í dag hafi hann svo séð nokkr­ar heiðagæs­ir og bles­gæs­ir vest­an við Sel­foss, en ljóst sé að þær hafi verið ný­komn­ar, enda hafi þær verið mjög þreytu­leg­ar þar sem þær hjúfruðu sig.

Yann Kol­beins­son hef­ur haldið utan um kom­ur far­fugla hér á landi frá ár­inu 1998 og seg­ir hann að aðeins tvisvar hafi lóan komið seinna en í ár. Að meðaltali komi fyrsta lóan 23. mars og því sé hún nokkuð seint á ferð í ár.

Árið 2013 sást fyrsta lóan hins veg­ar 1. mars, en árið 2001 kom hún ekki fyrr en 31. mars að sögn Yann.

Lóan hef­ur lengi verið tal­in einn helsti vor­boði hér á landi og er þá oft vísað til ljóðsins Lóan er kom­in eft­ir Pál Ólafs­son. Flest­ar lóur koma hingað til lands á bil­inu 1. apríl til 20. apríl, en lóan er al­geng­ur varp­fugl hér við land og stofn henn­ar tal­inn sterk­ur. 

Lóan er kom­in eft­ir Pál Ólafs­son:

Lóan er kom­in að kveða burt snjó­inn,
að kveða burt leiðind­in, það get­ur hún.
Hún hef­ur sagt mér, að senn komi spó­inn,
sól­skin í dali og blóm­st­ur í tún.
Hún hef­ir sagt mér til synd­anna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hef­ir sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú sumr­inu mót.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert