Lóan er komin

Fyrsta lóa ársins sást fyrir sunnan Selfoss í morgun, en …
Fyrsta lóa ársins sást fyrir sunnan Selfoss í morgun, en það var Haraldur Ólason fuglaáhugamaður sem sá hana á flugi við hús sitt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrsta heiðlóa ársins sást nú í morgun við Tjarnabyggð milli Selfoss og Eyrarbakka. Það var Haraldur Ólason, húsasmíðameistari og fuglaáhugamaður, sem tók eftir fuglinum, en fyrsta lóan er í seinna falli í ár miðað við síðustu 20 ár.

Haraldur segir í samtali við mbl.is að hann hafi séð lóuna út um gluggann á heimili sínu í Tjarnabyggð í morgun. Hún hafi komið á flugi og flogið framhjá húsinu. Segist hann handviss að um heiðlóu hafi verið að ræða, enda þekki hann lóur og aðra fugla eins og höndina á sér. Síðar í dag hafi hann svo séð nokkrar heiðagæsir og blesgæsir vestan við Selfoss, en ljóst sé að þær hafi verið nýkomnar, enda hafi þær verið mjög þreytulegar þar sem þær hjúfruðu sig.

Yann Kolbeinsson hefur haldið utan um komur farfugla hér á landi frá árinu 1998 og segir hann að aðeins tvisvar hafi lóan komið seinna en í ár. Að meðaltali komi fyrsta lóan 23. mars og því sé hún nokkuð seint á ferð í ár.

Árið 2013 sást fyrsta lóan hins vegar 1. mars, en árið 2001 kom hún ekki fyrr en 31. mars að sögn Yann.

Lóan hefur lengi verið talin einn helsti vorboði hér á landi og er þá oft vísað til ljóðsins Lóan er komin eftir Pál Ólafsson. Flestar lóur koma hingað til lands á bilinu 1. apríl til 20. apríl, en lóan er algengur varpfugl hér við land og stofn hennar talinn sterkur. 

Lóan er komin eftir Pál Ólafsson:

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú sumrinu mót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert