Reykjavíkurborg telur óraunhæft að gera ráð fyrir því að ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga taki gildi 25. maí.
Í sama streng tekur Samband íslenskra sveitarfélaga, sem bendir á að þessi löggjöf sé afar umfangsmikil og muni hafa gífurleg áhrif á opinbera aðila sem og einkaaðila.
Dómsmálaráðuneytið er nú að kynna lagafrumvarp sem ætlað er að innleiða nýlega reglugerð Evrópuþingsins og Evrópusambandsins um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Samtök atvinnulífsins og sjö önnur fyrirtækjasamtök hafa sent frá sér sameiginlega umsögn um frumvarpið þar sem undirbúningur málsins er gagnrýndur, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.