Búið er að loka Þjóðvegi 1 um Skeiðarársand og í Öræfum vegna veðurs. Mjög hvasst er á svæðinu og mælast vindhviður yfir 40 m/s, auk þess sem sandfok er á Skeiðarársandi. Segir í tilkynningu veðurfræðings á vef Vegagerðarinnar að veðrið sé „stórvarasamt ferðafólki“. Búast má við að lokunin standi fram á miðjan dag.
Einnig eru hviður á bilinu 35-40 m/s í Mýrdal og undir Austur-Eyjafjöllum fram eftir degi.
Fjarðarheiði hefur einnig verið lokað vegna veðurs en þar er hríðarveður og ekkert skyggni.
Vegir eru annars auðir á Suður- og Vesturlandi.
Það er greiðfært á láglendi á Vestfjörðum en sums staðar vetrarfærð á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Hrafnseyrarheiði en Dynjandisheiði er lokuð.
Á Norðurlandi er víðast greiðfært en hálka er á Öxnadalsheiði.
Það er hálka á Möðrudalsöræfum en mikið til autt á Héraði. Fjarðarheiði er þungfær en moksturstæki á ferðinni. Þar er skafrenningur og ansi hvasst. Hálka er á Fagradal en að mestu autt með ströndinni suður um. Þó er krapi í Berufirði. Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar.
Lokað er frá Breiðamerkursandi vestur á Skeiðarársand vegna veðurs.
Fréttin hefur verið uppfærð.