Leiðsögumaðurinn Ólafur B. Schram var á ferð í Öræfasveit þegar á vegi hans varð vindmælir sem hafði fokið. Þjóðvegi 1 um Skeiðarársand og Öræfi var lokað í morgun vegna hvassviðris og stóð lokunin fram eftir degi. Ólafur rakst á mælinn við brúna yfir Virkisá.
„Hann virtist hafa rifnað upp, hann var strengdur niður með allavega tveimur vírum og festur þarna við stein og það var bara allt komið upp úr jörðinni. Ég held að þessir mælar séu að mæla yfir 50 m/s svo þetta hlýtur að hafa verið meira en það,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
„Það var annar mælir þarna líka sem stóð uppi og ég fór að athuga hvort þetta hefði verið tekið niður en það var þá mjög klaufalega gert.“ Ólafur hitti svo björgunarsveitarmenn sem voru að opna veginn og þeir staðfestu að mælirinn hafi fokið. Hann segir kaldhæðnislegt að vindmælir skuli fjúka.
Sjálfur var Ólafur í Hofi í nótt, sem er innan svæðisins þar sem lokað var í dag vegna hvassviðris, og því var hann einn á ferð á svæðinu í dag.