Gríski anarkistahópurinn RUIS birti myndband af Hauki Hilmarssyni fyrr í mánuðinum þar sem hann greinir frá ferðalagi sínu til Sýrlands og ástæðum þess að hann ákvað að fara þangað.
Í myndbandinu, sem tekið var í desember, lýsir Haukur því hvernig hann ferðaðist til Sýrlands með RUIS-hópnum. Þá lýsir hann því hve hann hafi verið heillaður af byltingum frá því að hann var unglingur.
Hann talar um anarkisma og segir að þrátt fyrir að hann hafi áttað sig á að ekki sé mögulegt að ná markmiðum hans sé hann svo fastur í hugsunarhættinum að hann hafi ekki haft annarra kosta völ en að fara á stað þar sem hugmyndafræðin gæti haft áhrif og sameinast öðrum byltingaröflum.
Vesturlandabúa segir hann vera ósanngjarna því þeir séu fegnir þegar þeir heyri um sigra gegn fasisma, en á sama tíma neiti þeir að taka þátt í baráttunni gegn honum. Þeir hugleiði ekki hvað þurfi til að tryggja áframhaldandi sigra gegn fasisma, sem sé okkur og mannkyninu í heild til góðs.
Í lok myndbandsins segir Haukur þetta vera ástæður þess að hann fór til Sýrlands og að hann voni að útskýringarnar dugi ástvinum hans.