Hefur ekki efni á að vera ljósmóðir

Ella Björg Rögnvaldsdóttir sagði upp störfum sem ljósmóðir í gær.
Ella Björg Rögnvaldsdóttir sagði upp störfum sem ljósmóðir í gær. Ljósmynd/Ella Björg Rögnvaldsdóttir

Ella Björg Rögnvaldsdóttir sem sagði upp störfum sem ljósmóðir í gær segir það lágmarkskröfu að ljósmæður lækki ekki í launum við það að bæta við sig sérnámi. Í færslu sem hún skrifaði á Facebook-síðu sína í morgun segist hún hafa tekið eina erfiðustu ákvörðun lífs síns í gær þegar hún sagði upp.

„Ég er búin að strita fyrir þessum háskólagráðum mínum og skulda meira en ég kæri mig um að rifja upp í námslán,“ skrifar Ella Björg. „Ég stend ekki undir fjárhagslegum skuldbindingum mínum við að mennta mig með því að starfa við það sem ég er menntuð til. Ég hef ekki efni á að starfa sem ljósmóðir.“

Ella Björg útskrifaðist síðastliðið vor og hefur starfað síðan þá sem ljósmóðir. „Þetta er alveg ótækt ástand, maður verður að forgangsraða í þágu fjölskyldunnar. Þegar ég er að fá í launaumslagið svona 350 þúsund krónur og ég vinn allar vaktir, fullt af kvöld- og næturvöktum og um helgar þá er eitthvað stórkostlegt að,“ segir Ella.

Hún segir töluverðan hóp menntaðra ljósmæðra vera í sömu sporum og hún, sem hafi ákveðið að snúa sér til annarra starfa. „Þær eru margar sem leita til baka í hjúkrun og nýta sér grunnnámið en ekki sérnámið,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert