Mál óléttu konunnar tilkynnt lögreglu

mbl.is/Hjörtur

Landspítalinn tilkynnti lögreglunni um atvik þar sem ólétt kona var í lífshættu eftir nálastungumeðferð, að því er fram kemur á RÚV.

Embætti land­lækn­is greindi frá því í gær að ólétt kona hefði leitað til bráðamót­töku Land­spít­al­ans ný­lega í bráðri lífs­hættu eft­ir að hafa und­ir­geng­ist nála­stungumeðferð sem ætlað var að koma í veg fyr­ir ógleði á meðgöngu.

Konan var með svokallað loftbrjóst þegar hún kom á bráðamóttökuna. Loft­brjóst verður þegar gat kem­ur á lungað og það fell­ur sam­an, en slíkt get­ur hindrað önd­un, sér­stak­lega ef það ger­ist báðum meg­in.

Í samtali við RÚV sagði Björn Geir Leifsson, yfirlæknir hjá embætti landlæknis, að ekkert eftirlit væri með óhefðbundnum lækningum hér á landi.

„Það er eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og ef það koma fram kvartanir eða ábendingar um að heilbrigðisstarfsmenn séu ekki að fylgja eðlilegum aðferðum eða verklagi við veitingu heilbrigðisþjónustu, þá er auðvitað brugðist við því af hálfu landlæknisembættisins. En embættið hefur ekkert um þá að segja sem ekki eru viðurkenndir heilbrigðisstarfsmenn,“ sagði Björn Geir.

Hann sagði jafnframt að nauðsynlegt væri að hafa eftirlit með þeim sem stunda nálastungur, í ljósi þess að þær eru ekki hættulausar.

Fram kemur í frétt RÚV að konan hafi það gott eftir atvikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert