Þjóðmálaþátturinn Þingvellir fer í loftið

Björt Ólafsdóttir, Magnús E. Kristjánsson útvarpsstjóri og Páll Magnússon eru …
Björt Ólafsdóttir, Magnús E. Kristjánsson útvarpsstjóri og Páll Magnússon eru spennt fyrir samstarfinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar, og Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, byrja með glænýjan þjóðmálaþátt á K100 á sunnudögum. Er fyrsti þátturinn núna á páskadag kl. 10.

Þættirnir bera heitið Þingvellir og verða pólitík og málefni líðandi stundar í forgrunni. Nýju þáttastjórnendurnir voru spenntir fyrir verkefninu þegar Morgunblaðið náði af þeim tali og voru sammála um að hlutirnir yrðu ræddir á mannamáli.

„Við erum bæði þekkt fyrir það að vera ekkert að sykurhúða hlutina neitt sérstaklega mikið og fáum náttúrulega rými til þess þarna því við erum ekki fjölmiðlamenn, heldur stjórnmálamenn sem og manneskjur með miklar skoðanir,“ segir Björt.

„Ég held að þetta verði mjög skemmtilegt. Samsetningin er áhugaverð, Björt er formaður í stjórnmálaflokki, ég ekki, ég sit inni á þingi, hún ekki, þannig að við komum að þessari pólitík og samfélagsmálum hvort úr sinni áttinni og auðvitað hvort úr sínum flokknum,“ segir Páll og bætir við að það skemmtilegasta við þetta sé að þau séu ósammála. „Það er alveg vitað og þess vegna stillum við þessu þannig upp,“ segir Björt.

Þarf ekki að þykjast lengur

Páll starfaði áratugum saman í fjölmiðlum áður en hann varð þingmaður en segir að þessi þáttur verði viðbrigði fyrir sig. „Ég hef verið alla ævina í fjölmiðlum og alltaf verið að keppast við það að halda aftur af þeim skoðunum sem ég hef og unnið þannig að ekki megi lesa úr því hvorum megin hryggjar ég er. Nú er ég ekkert að þykjast neitt; nú er ég bara þar sem ég er og Björt er þar sem hún er,“ segir Páll. Þau eru sammála um að fyrirkomulagið veiti þeim meira frelsi til að komast að kjarna hvers máls og verður þátturinn þannig öðruvísi en aðrir helgarmorgunþættir.

„Við viljum ekki vera að fara mikið í kringum hlutina og komast úr þessari froðu sem svona umræður eru oft sveipaðar í, við tölum bæði hreina íslensku, við Páll,“ segir Björt.

Þáttunum verður skipt á milli þeirra en þau útiloka ekki að verða saman í hljóðverinu í einhverjum þáttum. Þau munu þó vinna þættina í mikilli sameiningu. Verða stjórnmálamenn og aðrir góðir gestir í hverjum þætti.

Sem fyrr segir er fyrsti þátturinn á sunnudag, páskadag, kl. 10.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert