Ótímabært er að segja til um hvort að mannslátið á Suðurlandi sem tilkynnt var um í morgun hafi borið að með saknæmum hætti.
Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is. Hann segir að rannsókn málsins standi enn yfir og að búið sé að hafa samband við flesta aðstandendur hins látna, eða alla nema einn.
Lögreglunni á Suðurlandi barst á níunda tímanum í morgun tilkynning um að maður væri látinn í heimahúsi í Árnessýslu. Tilkynnandinn sjálfur, ásamt öðrum manni sem einnig var á vettvangi, eru nú í haldi lögreglunnar vegna rannsóknar málsins.
Greint var frá því á Vísi Lögregla hefði girt af sveitabæ í Biskupstungum og að lögreglulið sé að störfum á svæðinu.