Farið fram á gæsluvarðhald til 9. apríl

mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurlandi mun fara fram á gæsluvarðhald til 9. apríl yfir öðrum bróðurnum sem handtekinn var í morgun á sveitabæ í uppsveitum Árnessýslu í tengslum við mannslát. Hinum bróðurnum hefur verið sleppt úr haldi. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá embættinu, í samtali við mbl.is nú fyrir stuttu.

Mennirnir þrír voru bræður og samkvæmt tilkynningu lögreglunnar fyrr í dag voru ummerki um átök á vettvangi. Sá sem lést var yngstur þeirra bræðra, en sá sem enn er í haldi er miðbróðirinn.

Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli rannsóknarhagsmuna og verður hann færður fyrir dómara nú á eftir.

Dánarorsök liggur ekki fyrir, en réttarkrufning verður framkvæmd strax á þriðjudaginn. Oddur segir að lögregla vilji ekki tjá sig nánar um einstök atriði rannsóknarinnar að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert