Umhverfisstofnun hefur gripið til skyndilokana á þremur stöðum vegna gróðurskemmda síðustu vikur. Klukkan 10 í dag var gönguleiðinni inn í Reykjadal í Ölfusi lokað en þar hefur álag á stíga og umhverfi verið gríðarlegt. Ekki er í bígerð að loka öðrum svæðum að svo stöddu en ef ábendingar um skemmdir berast verða þær skoðaðar og ástandið metið.
„Þarna er klaki að fara úr jörðu og jarðvegurinn mjög viðkvæmur fyrir átroðningi,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun í samtali viðmbl.is um ástandið í Reykjadal. Hann segir veðrið í raun ekkert óvenjulegt, um dæmigert vorveður sé að ræða. Hins vegar sé ágangur fólks á svæðinu nú óvenjumikill á þessum viðkvæma árstíma. Mikil leðja hafi myndast á göngustígum og fólk freistast til að ganga til hliðar við þá og slíkt hefur valdið skemmdum. „Við teljum að næstu daga og vikur geti verið hætta á meiri skemmdum og því ákváðum við að grípa inn í.“
Ólafur segir þetta ekki fyrsta vorið sem gripið sé til skyndilokana á borð við þessar. Það hafi verið gert í fyrravor á Skógaheiði en því svæði var lokað á ný fyrir nokkrum dögum. Heimildir Umhverfisstofnunar til skyndilokana komu til með nýjum náttúruverndarlögum sem tóku gildi í nóvember árið 2015. „Þá fengum við þessi verkfæri til að bregðast við svona aðstæðum sem geta komið upp mjög skyndilega.“ Ólafur segir að aðeins á nokkrum dögum geti skapast ástand eins og nú er í Reykjadal, á Skógaheiði og í Fjaðrárgljúfrum en það eru þeir þrír staðir sem nú eru lokaðir.
Hann segir að búast megi við að það verði fastur liður á vorin að loka svæðum þar sem fjöldi ferðamanna hingað til lands hefur stóraukist á nokkrum árum.
Spurður hvort ekki hefði þurft að bregðast fyrr við segir Ólafur að oftast sé gripið til lokana í kjölfar ábendinga, m.a. frá sveitarfélögum. Reykjadalur sé ekki friðlýst svæði og því ekki beinlínis á ábyrgð Umhverfisstofnunar. Hann vonar að skemmdirnar á náttúrunni þar séu afturkræfar en það eigi þó eftir að meta. „Það má vel segja að betra hefði verið að grípa inn í þetta fyrr,“ segir Ólafur en bendir á að það sé töluvert inngrip inn í almannarétt að loka fyrir aðgengi. Þá segir hann að svona ástand geti skapast á mjög stuttum tíma þegar klaki fari úr jörðu og ábendingar því ekki borist fyrr en í óefni var komið. „Þetta gerist á aðeins örfáum dögum.“
Á mörgum ferðamannastöðum hefur verið farið í mikla innviðauppbyggingu sem hefur orðið til þess að ekki þarf að loka þeim á viðkvæmum tímum eins og á vorin, að sögn Ólafs. Á sumum svæðum, eins og í Fjaðrárgljúfri, hafi verið farið í uppbyggingu en hún hafi hins vegar ekki dugað til. „Þar er nú verið að meta til hvaða aðgerða þurfi að grípa í framhaldinu.“
Þar voru landverðir í fyrsta sinn í fyrrasumar og þannig verður það aftur nú í sumar og eru þeir reyndar þegar mættir til starfa vegna ástandsins og vakta svæðið.
Ólafur segir að allt kapp sé lagt á að koma upplýsingum um lokanir svæðanna til ferðamanna, innlendra sem erlendra, fljótt og vel. Þá séu svæðin vöktuð og merkingum komið fyrir. Þannig verði einnig staðið að lokuninni í Reykjadal í dag. Bráðabirgðamerkingar verða settar upp og svæðið vaktað af starfsmönnum Umhverfisstofnunar.
Viðbrögð gesta eru að mestu góð. „Almennt séð þá skilur fólk þau sjónarmið sem eru að baki lokununum. Sumir hafa komið langt að og vilja berja þessi náttúruundur augum og eru svekktir að missa af því. Við höfum aðeins heyrt af því í Fjaðrárgljúfrum að fólk hafi orðið fyrir vonbrigðum. Það eru svo alltaf einhverjir sem virða lokanirnar að vettugi og við reynum að hafa upp á þeim.“
Spurður hvort að öðruvísi verði staðið að lokunum næsta vor og jafnvel gripið fyrr inn í segir Ólafur að áfram verði Umhverfisstofnun að reiða sig á ábendingar frá landeigendum og ferðafólki. Skoða þurfi hvort grípa þurfi til fyrirbyggjandi aðgerða, setja þrengingar á stíga til að fólk fari síður út af þeim eða setja upp göngupalla og mottur. Það sé þó ekki hægt alls staðar.