Mestur stuðningur við Dag

Dagur B. Eggertsson með 46% fylgi sem borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson með 46% fylgi sem borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Meirihlutinn hefur verið mjög samhentur, fólk á því kannski ekki að venjast í stjórnmálum. Ég hef verið meira úti í hverfunum en fólk á að venjast og finn að fólk kann að meta það. Annars er það ekki mitt að dæma. Ég er innilega þakklátur og reyni að standa undir þessu trausti.“

Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Morgunblaðinu í dag þegar leitað er skýringa á því að hann hefur langmestan stuðning borgarstjóraefna, skv. könnun, sem um er fjallað í blaðinu.

Rúmlega 46% þeirra sem afstöðu tóku í könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið segjast helst vilja að Dagur gegni áfram embætti borgarstjóra Reykjavíkur. Tæp 30% nefna Eyþór Laxdal Arnalds, efsta mann á lista Sjálfstæðisflokksins. Í þriðja sæti er Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins. Vildu 7,1% þátttakenda sem afstöðu tóku sjá hana sem borgarstjóra. 6,3% nefndu Líf Magneudóttur, oddvita VG, 3,4% Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar, og 1,4% Ingvar Mar Jónsson, oddvita Framsóknarflokksins. 5,9% vildu einhvern annan.

„Það er ljóst að Dagur hefur ekki stuðning meirihluta þeirra sem tóku afstöðu. Hann naut meiri stuðnings fyrir fjórum árum. Þetta endurspeglar kannski tölurnar í könnun um fylgi flokkanna,“ segir Eyþór.

Þetta sýnir ný skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið dagana 21. til 27. mars. Fjöldi þátttakenda í könnuninni, eða 27,6%, svaraði spurningunni með „veit ekki“. Í könnuninni voru eingöngu birt nöfn þeirra oddvita sem framboðin hafa tilkynnt. Nöfn voru birt í slembiröð.

Allnokkur munur er á afstöðu kynjanna til oddvita Sjálfstæðisflokksins, Eyþórs Arnalds. Hann nýtur mun meiri stuðnings meðal karla en kvenna, Vilja 34,9% karla sjá hann sem borgarstjóra en 22,6% kvenna. Dagur B. Eggertsson nýtur aftur á móti meiri stuðnings kvenna en karla, 49,8% á móti 43,8%. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert