Nýr borteigur gerður við gígaröðina Eldvörp

Framkvæmdir við Eldvörp í fyrradag. Þær hafa farið sem eldur …
Framkvæmdir við Eldvörp í fyrradag. Þær hafa farið sem eldur í sinu um Facebook. Síðdegis í gær höfðu 700 deilt þeim. Ljósmynd/Ellert Grétarsson

Verktakar á vegum HS Orku eru að útbúa nýjan borteig við gígaröðina Eldvörp í landi Grindavíkur. Er það annar borteigurinn á svæðinu en alls eru fyrirhugaðir þrír til fimm teigar.

Fyrir er á svæðinu borhola frá níunda áratugnum. Að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra HS Orku, er hún tengd við prófunarbúnað.

Svolítið austar er nýi borteigurinn en þar er búið að bora fyrsta hlutann af tilraunaholu. HS Orka hefur fengið framkvæmdaleyfi til að bora nokkrar rannsóknarholur og var gert sérstakt umhverfismat vegna þeirra. Vegir sem liggja um svæðið eru nýttir.

Áhrif á upplifun ferðafólks

Í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum borplananna á sínum tíma kom fram að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði sjónræns eðlis og vegna hávaða á framkvæmdatíma. Það muni hafa áhrif á upplifun ferðamanna sem sækja svæðið heim. Þessi áhrif eru metin talsverð neikvæð vegna umfangs teiganna og staðsetningar þeirra í og við þá landslagsheild sem gígaröðin Eldvörp er. Einnig telur stofnunin að áhrif framkvæmdanna á jarðmyndanir séu staðbundin en talsvert neikvæð vegna rasks á eldhrauni. Sama gildi um gróður þar sem um er að ræða nokkuð umfangsmikið, óafturkræft rask á vel grónum, óröskuðum svæðum, meðal annars mosagrónum nútímahraunum sem hafi ákveðna sérstöðu vegna fágætis á heimsvísu.

Nýting orkunnar er í nýtingarflokki rammaáætlunar. Sérstakt umhverfismat verður að gera um hana, ef af verður. Ásgeir segir að svæðið verði metið þegar búið verður að bora rannsóknarholurnar. Ekki standi til að virkja þar heldur nýta heita vatnið í hitaveitu fyrir Suðurnesin og gufuna til rafmagnsframleiðslu í öðrum virkjunum, annað hvort í Svartsengi eða á iðnaðarsvæðinu vestan Grindavíkur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert