„Ég yrði ekki hissa ef fleiri segðu upp vegna þess að það hefur verið vaxandi óánægja á meðal ljósmæðra undanfarið. Margar hafa fengið nóg og vilja ekki standa í þessu lengur,“ segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands.
Greint var frá því í gær að þrettán ljósmæður hefðu sagt upp störfum á Landspítalanum síðustu daga. Áslaug segir að uppsagnirnar hafi ekki komið sér á óvart.
„Álagið er gríðarlegt og ljósmæður koma oft bugaðar heim. Óánægjan hefur hlaðist upp og að ekkert sé að ganga í samningaviðræðum er kannski punkturinn yfir i-ið.“
Næsti fundur Ljósmæðrafélags Íslands og samninganefndar ríkisins verður eftir páska en hvorki hefur gengið né rekið í rúmlega sex mánaða kjaraviðræðum.
„Við erum enn mjög ósammála. Það er eðli samningaviðræðna að það taki tíma að ná samkomulagi en mér sýnist það ekki vera að gerast. Ég hef ekki tilfinningu fyrir því að þetta sé að smella.“
Aðspurð segir Áslaug að ekki sé stemning fyrir verkfalli, ljóðsmæður leiti frekar á önnur mið.
„Stundum eru uppsagnir þannig að fólk er að reynir að knýja fram betri kjarabætur en ég er hrædd um að við séum að missa fólk úr stéttinni.“
Í opinni færslu á Facebook lýsir ein ljósmóðir álaginu sem fylgir starfinu. Hún segir að í annað sinn á sex dögum hafi hún verið kölluð til vinnu um miðja nótt. Krefst hún þess að ábyrgðin sem felst í því að mæta til vinnu jafnt nótt sem dag verði metin til launa.
„Ljósmæður eru kvennastétt sem mætir góðvild í samfélaginu öllu en lítilsvirðingu þegar kemur að launaseðlinum.“