43 barna leitað frá áramótum

mbl.is/Hari

Aldrei hafa fleiri leitarbeiðnir vegna barna borist lögreglu en í mars síðastliðnum frá því að Guðmundur Fylkisson hóf störf sem aðal­varðstjóri hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu árið 2014. Heildarfjöldi leitarbeiðna það sem af er ári eru 74 en þær voru 65 á sama tíma í fyrra.

„Þennan mánuð var um að ræða mjög erfiða einstaklinga sem ég hef þurft að leita að aftur og aftur. Þá liggur í augum uppi að það vanti eitthvað upp á í meðferðarhlutanum,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. 

Af þessum 74 leitarbeiðnum eru 48 vegna stúlkna og 26 vegna pilta. Fjöldi einstaklingana það sem af er ári eru 43, 22 stúlkur og 21 piltur. Munurinn á fjölda leitarbeiðna og einstaklinga skýrist þannig því að sumum þarf að leita að aftur og aftur. 29 þeirra var leitað einu sinni. Að fjórum var leitað fjórum sinnum eða oftar á tímabilinu. Þá var eins einstaklings leitað tíu sinnum. 

Dagarnir voru farnir að vera ansi langir þegar ég var á sama sólarhring með fimm leitarbeiðnir og þar af þrjár vegna erfiðra einstaklinga sem hefði átt að vera hægt að koma í veg fyrir ef þeir hefðu fengið meðferðarpláss,“ segir Guðmundur og segist hafa skráð hjá sér sjö tilfelli frá áramótum þar sem bið var eftir því að komast inn á Stuðla. 

MST er meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Guðmundur segir að MST virki mjög vel fyrir ákveðinn hóp en sumir standi út af. Hins vegar vinni nokkrir foreldrar markvisst að því að ýta á stjórnvöld og kerfið að bæta úrræði. 

Þá nefnir hann að barna- og unglingageðdeildin sé aðeins í hálfum afköstum vegna myglu. „Það er verið að gera upp húsið og ég held að aðeins helmingur þess sé í notkun. Allt hefur þetta áhrif.“

Í vetur var birtur ýtarlegur greinaflokkur um þessi mál á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert