Noregur hunsað hagsmuni Íslands

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þar sem norsk stjórnvöld hafa oft kosið að fara sínar eigin leiðir í EES-samstarfinu kann það að þýða að íslenskir ráðamenn verði ekki eins reiðubúnir að koma til móts við hagsmuni Norðmanna vegna orkumálatilskipunar Evrópusambandsins sem norska þingið samþykkti nýverið eftir miklar deilur um málið þar í landi.

Þetta er haft eftir Eiríki Bergmann Einarssyni, prófessor í stjórnmálafræði, á norska fréttavefnum E24. Tilskipunin hefur ekki verið samþykkt af Alþingi en bæði landsfundur Sjálfstæðisflokksins og flokksþing Framsóknarflokksins hafa ályktað gegn framsali á fullveldi yfir íslenskum orkumálum til Evrópusambandsins.

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins,“ segir í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins en í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins segir: „Framsóknarflokkurinn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.“

Kemur framkoma Norðmanna í bakið á þeim?

Til þess að umrædd löggjöf Evrópusambandsins, svonefndu þriðju orkumálapakki, verði tekinn inn í EES-samninginn þarf samþykki Alþingis. Þriðja EES-ríkið, sem stendur utan sambandsins, Liechtenstein, hefur heldur ekki enn samþykkt löggjöfina. 

Eiríkur segir að norsk stjórnvöld hafi til þessa haft tilhneigingu til þess að horfa framhjá hagsmunum Íslands og Liechtenstein í EES-samstarfinu og það gæti núna haft afleiðingar fyrir þau þar sem samþykkt orkumálapakkans væri í höndum Íslendinga.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gagnrýndi Norðmenn og Liechtenstein í umræðum á Alþingi í febrúar fyrir að gefa eftir gagnvart ítrekuðum kröfum Evrópusambandsins um að ríkin þrjú færu beint undir vald stofnana sambandsins áður en þau hefðu komist að niðurstöðu sín á milli og vega þannig að grunni samstarfsins.

Fram kemur í fréttinni að vaxandi andstöðu við EES-samninginn gæti á Íslandi og rifjuð upp afstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins og flokksþings Framsóknarflokksins. Þar með séu tveir af þremur ríkisstjórnarflokkum Íslands á þeirri línu. Þriðji ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri græn, hafi einnig haft efasemdir gagnvart Evrópusambandinu.

Íslandi ætti að vera undanþegið tilskipuninni

Einnig er rætt við Harald Ólafsson, formann Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, sem segir að fyrir fimm árum síðan hafi lítil umræða verið um aðild Íslands að EES-samningnum. Hann hafi einfaldlega verið hluti af hversdagslífinu. Nú væru efasemdir miklu meiri bæði á meðal stjórnmálamanna og almennings. 

Haft er eftir lagaprófessornum Halvard Haukeland Fredriksen að málið varðandi orkutilskipunina skipti Íslendinga ekki eins miklu máli og Norðmenn og lýsir hann efasemdum um að málið verði stöðvað hér á landi.

Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segir í samtali við fréttavefinn að Ísland ætti að vera undanþegið orkumálatilskipuninni í ljósi þess að íslenskur orkumarkaður tengist ekki orkumarkaði Evrópusambandsins.

Haraldur segir Íslendinga telja að EES-samningurinn sé stöðugt að verða minna hagstæðan fyrir íslenska hagsmuni. 

Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður.
Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert