Vilja skýrslu um kosti og galla EES

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrettán þingmenn frá þremur stjórnmálaflokkum hafa lagt fram beiðni á Alþingi um að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flytji þinginu skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Vísað er til þess í greinargerð með skýrslubeiðninni að um aldarfjórðungur sé liðinn frá því að EES-samningurinn hafi tekið gildi í byrjun árs 1994 sem haft hafi djúpstæð áhrif á samfélagsþróun á Íslandi. „Sú ákvörðun að staðfesta EES-samninginn var umdeild á sínum tíma og enn eru skiptar skoðanir um árangur af þátttöku Íslands í EES-samstarfinu.“

Full ástæða sé til þess að meta á hlutlægan hátt kosti og galla EES-samstarfsins fyrir Ísland, bæði í ljósi reynslunnar af því og til þess að bregða birtu á þær áskoranir sem blasi við í framhaldinu. Þar beri hæst fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu en Bretar hafi lýst því yfir að þeir verði ekki aðildar að EES-samningnum.

Bent er á í því sambandi að Bretar séu ein helsta viðskiptaþjóð Íslendinga og því mikilvægt að hagsmunir Íslands verði tryggðir við útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Margt sé enn óljóst í þeim efnum, en þó liggi fyrir að Ísland þurfi á næstunni að endurskoða viðskiptatengsl sín við Bretland sem til þessa hafa byggst á EES-samningnum.

Spurningar vaknað um lýðræðisskort og afsal fullveldis

Rifjað er upp að á árunum 2010-2012 hafi verið gerð úttekt á reynslu Norðmanna af aðildinni að EES-samningnum sem unnin hafi verið af sérfræðingum sem fengnir hafi verið til verksins af norska utanríkisráðuneytinu. Einnig hafi verið skoðaðir aðrir samningar Norðmanna við Evrópusambandið og þar á meðal Schengen-samningurinn.

Komist hafi verið að þeirri niðurstöðu meðal annars að enginn milliríkjasamningur sem Noregur hefði gert hefði haft jafndjúpstæð áhrif á norska samfélagsþróun og EES-samingurinn. Alvarlegar spurningar hafi vaknað um skort á lýðræði og afsal á fullveldi Noregs vegna EES-samningsins og Schengen-samvinnunnar.

„Í ljós kom að áhrif EES-samningsins höfðu náð til miklu fleiri samfélagsþátta en lagt var upp með árið 1992. Enn virðist ekki sjá fyrir endann á þeirri þróun því nú eru miklar umræður í Noregi um frumvarp norsku ríkisstjórnarinnar um aðild landsins að orkulöggjöf ESB,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

Fyrsti flutningsmaður er Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, en aðrir flutningsmenn koma frá Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Þar á meðal er Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og forveri Guðlaugs Þórs í embætti.

Talsverð umræða hefur verið um EES-samninginn hér á landi að undanförnu og hefur til að mynda Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, farið gagnrýnum orðum um aðild Íslands að samningnum á Alþingi.

Þá hafa bæði landsfundur Sjálfstæðisflokksins og flokksþing Framsóknarflokksins ályktað með gagnrýnum hætti um EES-samninginn, lagst gegn framsali á ákvarðanavaldi í orkumálum í gegnum samninginn og kallað eftir úttekt á honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert