Finna lausn án þátttöku Íslands

Ljósmynd/Johannes Jansson - Norden.org

„Segi Ísland nei verður það ekki nóg til þess að stöðva þátttöku Norðmanna í ACER. Þá tel ég að Noregur og og Evrópusambandið muni finna praktíska lausn án þátttöku Íslands.“

Þetta er haft eftir norska lögmanninum Per Andreas Bjørgan á fréttavef norska dagblaðsins Nationen varðandi þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins sem til stendur að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) en hann felur meðal annars í sér stofnun Orkustofnunar ESB sem fær ákveðið ákvörðunarvald í orkumálum innan svæðisins.

Bjørgan, sem er fyrrverandi yfirmaður hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem sér um að framfylgja EES-samningnum gagnvart þeim þremur aðildarríkjum hans sem standa utan Evrópusambandsins, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, segir að það yrði merkilegt ef Ísland hafnaði löggjöfinni í ljósi þess að landið hefði enga tengingu við orkumarkað sambandsins.

Hins vegar hefur verið bent á, meðal annars af Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að óháð því hvort til þess kæmi í framtíðinni að Ísland tengdist orkumarkaði Evrópusambandsins um sæstreng væri með samþykkt löggjafarinnar búið að leggja blessun yfir evrópskt ákvörðunarvald yfir íslenskum orkumálum.

Miklar deilur hafa verið um málið í Noregi en svo fór þó að lokum að norska þingið samþykkti þriðja orkumálapakkann. Til þess að hann verði hins vegar formlega hluti af EES-samningnum þurfa öll þjóðþing þeirra aðildarríkja hans sem standa utan Evrópusambandsins að samþykkja löggjöfina en ljóst er að efasemdir um málið hafa farið vaxandi hér á landi.

Þannig hafa bæði landsfundur Sjálfstæðisflokksins og flokksþing Framsóknarflokksins hafnað því að umrædd löggjöf Evrópusambandsins verði samþykkt á þeim forsendum að ekki sé ásættanlegt að vald yfir íslenskum orkumálum verði fært til evrópskra stofnana. Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur lýst áhyggjum af málinu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur farið hörðum orðum um málið á Alþingi og gagnrýnt Evrópusambandið fyrir að krefjast þess í vaxandi mæli að EES-ríkin sem standa utan sambandsins samþykktu beint boðvald frá stofnunum þess. Bjarni hefur einnig sagt að orkumál Íslendinga kæmu Evrópusambandinu í raun alls ekkert við.

Samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í ríkisstjórn, Vinstrihreyfingin grænt framboð, lagðist gegn fyrri orkumálalöggjöf frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Flokkurinn hefur hins vegar ekki tekið opinberlega afstöðu til nýju löggjafarinnar þó talsverðar efasemdir hafi heyrst um hana úr röðum flokksmanna hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert