Einkareknar stofur og stofnanir hafa þurft að leita til sjúkraþjálfara erlendis til að anna þeirri gríðarlegu aðsókn sem er í sjúkraþjálfun um þessar mundir. Nýtt greiðsluþátttökukerfi, sem tók gildi 1. maí 2017, er talið vera helsta ástæða þess að fleiri fari í sjúkraþjálfun en áður.
Áætlað er að Sjúkratryggingar Íslands muni fara yfir fjárheimildir sínar til niðurgreiðslu í ár vegna þessarar auknu aðsóknar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, segir félagið farið að veita leiðbeiningar um hvernig hægt sé að fá erlenda sjúkraþjálfara til landsins. Slíkt sé þó hægara sagt en gert. Tekjumöguleikar sjúkraþjálfara eru meiri á einkareknum stofum um þessar mundir og segir Unnur að aðsóknin bitni því mest á stofnunum.