Úrræði fyrir unglinga í fíknivanda

Reyna á að aðstoða unglinga sem hafa sótt meðferðarúrræði en …
Reyna á að aðstoða unglinga sem hafa sótt meðferðarúrræði en ekki náð tökum á vanda sínum. mbl.is/Hari

Vinna við að setja á laggirnar tilraunaverkefni fyrir unglinga sem hafa sótt meðferðarúrræði en ekki náð tökum á vanda sínum er hafin á vegum félags- og jafnréttismálaráðuneytisins.

Um er að ræða sérhæft búsetuúrræði í framhaldi af vistun á meðferðarheimili þar sem áhersla yrði lögð á eftirmeðferð og stuðning við aðlögun í samfélaginu.

Umfjöllun mbl.is um ungt fólk í öngstræti

„Við verðum að forgangsraða í þágu barnanna. Samfélag sem bregst ekki við svona þróun er óábyrgt samfélag,“ segir Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra, í tilkynningu.

Hann gerði grein fyrir þessum aðgerðum á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Um er að ræða annars vegar aðgerðir til að bregðast við bráðavanda og hins vegar aðgerðir til lengri tíma.

Gert er ráð fyrir að einstaklingar geti dvalið í þessu nýja úrræði til að minnsta kosti 18 ára aldurs og jafnvel lengur. Sérstökum verkefnahópi verður falið að vinna nánari útfærslu á slíku úrræði og er gert ráð fyrir að niðurstöður hans liggi fyrir eftir tvær vikur. 

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í tilkynningunni kemur fram að unglingum sem leita meðferðar hjá Barnaverndarstofu og hafa notað sprautur og lyfseðilsskyld lyf til vímuefnaneyslu hefur fjölgað á undanförnum árum. Fleiri hafa einnig leitað til SÁÁ.

Það sem af er ári hafa 74 leitarbeiðnir borist lögreglu vegna týndra barna en í flestum tilfellum er um að ræða börn sem nota vímuefni eða eiga við fíknivanda að etja. Þá hafa aldrei borist jafn margar leitarbeiðnir í einum mánuði og í nýliðnum mars en þá var 34 barna leitað. 

Ráðherra kynnti einnig á ríkisstjórnarfundi í morgun að sett verði af stað vinna þar sem horft verður til framtíðar og metið hvort þörf er á breyttum vinnubrögðum og hugsanlega fjölgun úrræða fyrir börn í fíknivanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert